Menningararfur
Á Hofstöðum í Mývatnssveit hafa farið fram viðamiklar fornleifarannsóknir seinustu þrjá áratugi. Þar er merkileg minjaheild sem spannar tímabilið frá víkingaöld til tuttugustu aldar. Grafið var upp gríðarstórt mannvirki frá víkingaöld, skáli, þar sem fólk kom saman til veisluhalda auk minni húsa í kring. Veisluskálinn er eitt stærsta mannvirki sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Einnig var grafinn upp kirkjugarður á Hofstöðum og er hann einn af elstu kirkjugörðum sem grafnir hafa verið upp hér á landi. Heilu fjölskyldurnar voru greftraðar í garðinum og veita bein þeirra upplýsingar um líf fólks.
Mörg hundruð manns hafa komið að rannsóknum á Hofstöðum og víðar í Mývatnssveit. Afraksturinn er á annað hundrað ritverk: bækur, fræðigreinar, skýrslur og nemendaritgerðir. Markmiðið hér er fyrst og fremst að kynna hið margþætta ferli sem fornleifarannsókn er. Á þessum langa rannsóknartíma fleygði tækninni fram á öllum sérsviðum fornleifafræði, ekki hvað síst síðustu 30 ár. Hofstaðarannsóknir hafa verið liður í að byggja upp stórt tengslanet fræðimanna er vinna fjölbreyttar rannsóknir við Norður Atlantshaf.
Í langtímarannsókn eins og þeirri á Hofstöðum fæst skýr mynd af því hvernig hugmyndir, vitneskja og túlkun á fortíðinni breytist. Hér er gerð grein fyrir fornleifunum á Hofstöðum og hvaða menningararf þær leiða fram.
Til hægri, veisluskálinn á Hofstöðum. Renndu yfir myndina með músinni til að sjá hvaða byggingu er um að ræða. © Fornleifastofnun Íslands.

óþekkt
kamar
eldhús / búr
gangur
gangur
skáli
íveruhús
eldhús / búr
smiðja
smiðja
búr
Landið og nýting þess
Búseta manna á Íslandi spannar einungis rúmlega 1000 ár, sem er með því stysta í heiminum. Það auðveldar greiningu á þeim umhverfisbreytingum sem urðu við komu fólks til landsins, þar sem stutt er að grafa niður í ósnerta jörð. Auk þess gefa gjóskulög góðar upplýsingar um tímaramma.
Hofstaðir er landmikil jörð í Mývatnssveit sem afmarkast af Laxá í vestri og suðri, Sandvatni og Hamri í norðri og Sortulæk í austri. Stór hluti jarðarinnar er heiðaland, Hofstaðaheiði. Landið er að mestu lyngmói en við vatnsbakka graslendi og kjarr. Bæjarstæðið er uppi á hjalla skammt frá bakka Laxár. Ofan við bæ og tún er allbrött brekka upp á heiðina. Hlunnindi eru gott beitarland, silungsveiði, eggjatekja og viður. Leið milli sjávar og Mývatns lá um Hofstaðaland. Frá bæjarstæðinu var auðvelt að fylgjast með mannaferðum og flutningum, enda bendir óvenju hátt hlutfall sjófisks í fæði íbúa á Hofstöðum til góðs aðgengis að sjávarnytjum. Það má jafnframt hugsa sér að nálægðin við mikilvæga flutningsleið hafi styrkt Hofstaði sem eins konar miðstöð í sveitinni.
Landnotkun á Hofstöðum hefur verið rannsökuð á margvíslegan máta, allt frá því að kortleggja minjar sem eru áberandi í landslaginu til rannsókna á örsmáum kolum og frjókornum í jarðvegi. Niðurstöður þessara rannsókna hafa veitt svör við fjölmörgum spurningum um umsvif og líf fólksins á staðnum.
Til ígrundunar:
- Hvaða breytingar urðu við komu mannsins í ósnerta náttúruna?
- Hvernig var landinu skipt upp, hver voru landgæðin og urðu breytingar þar á?
Forngarðar
Víða um land eru forngarðar, hlaðnir að mestu úr torfi, sem gátu verið næstum mannhæðar háir þegar þeir voru reistir. Hlutverk þeirra var sennilega margþætt en það hefur tengst landnýtingu, beitarstýringu og eignarhaldi. Aldursgreiningar með aðstoð gjóskulaga á forngörðum á Íslandi sýna fram á að margir þeirra voru reistir á 10. og 11. öld. Einn forngarður er skammt austan Hofstaðatúns. Samanlögð lengd þessa gríðarlegu mannvirkja í Þingeyjarsýslum er um 700 km. Í lagabálknum Grágás, frá miðri 13. öld, er lýsing á því hvernig garðar af þessu tagi skyldu reistir:
„Ef maður er beiddur garðlags, þá skulu þeir löggarð gera. En löggarður er fimm feta þjokkur við jörð niðri en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi er bæði hefir gildar álnar og faðma.“
(Grágás, landabrigðisþáttur 17)
Tún
Túngarður, hlaðinn á seinni hluta 10. aldar, var umhverfis bæjarstæðin þrjú til að verja túnin fyrir ágangi búfjár. Allt frá landnámi tíðkaðist að auka grassprettu með því að bera áburð á tún eins og matarleifar, ösku og tað. Slíkar jarðabætur voru kannaðar á Hofstöðum með rannsóknaraðferð sem kallast örformgerðarfræði. Tekin eru sýni úr jarðveginum, þau skorin í sneiðar og rýnt í smágerðar einingar í smásjá. Á þann hátt er hægt að sjá hlutfall kola, fræja og annarra efna í jarðvegi en breytingar á þessum hlutföllum bera vott um hvað borið var á túnin og í hvaða magni. Í ljós kom að túnin á Hofstöðum voru ekki sérlega góð til ræktunar. Það voru því ekki gæði Hofstaða sem bújarðar sem var undirstaða uppbyggingar á staðnum. Túnunum var þó vel við haldið frá byrjun og fram til 1477. Þá dró umtalsvert úr jarðabótum.
Fræ
Í Hofstaðatúninu eru arðför frá 10. öld. Þau bera vott um ræktun, því arður var áhald sem notað var til að plægja ræktarland. Algengt er að finna bygg í elstu minjum á Íslandi og líklega hafa landnámsmenn látið reyna á ræktun þess hér, en hafa þó einnig þurft að reiða sig á innflutning. Bygg er harðgerðasta korntegundin og líklegust til að gefa af sér svo norðarlega. Lítið af byggi fannst í gólfum veisluskálans á Hofstöðum, aðeins 23 byggfræ. Ástæður fyrir litlum heimtum geta verið nokkrar. Var byggið hugsanlega fágæt munaðarvara á þessu svæði? Skýringin gæti líka falist í lélegum varðveisluskilyrðum lífrænna efna í skálanum eða raski eftir rannsóknir í upphafi 20. aldar. Greining á fræjunum bendir til að þau séu aðflutt, annaðhvort frá öðrum stað á Íslandi eða erlendis frá. Eitt hafrafræ fannst en það er talið hafa slæðst með í byggpoka. Þá sýna frærannsóknir að krækiber og haugarfi voru líklega nýtt til matar á Hofstöðum en til gamans má geta þess að sérstaklega mikið fannst af krækiberjafræjum í útikamrinum.
Frjókorn
Frjókorn eru á stærð við rykkorn og dreifast með vindi. Rannsóknir á frjókornum í setlögum í Helluvaðstjörn, þar sem umtalsverður skógur var, varpa ljósi á nýtingu skóga í Mývatnssveit. Fram til 1300 fækkar birkiplöntum greinilega en við tekur stöðugt ástand skógarins sem er þó töluvert minni en við landnám. Af því má draga þá ályktun að skógur hafi verið ofnýttur eða brenndur til að auka ræktarland fyrstu aldirnar eftir landnám. Óvíst er að allar umhverfisbreytingar í Mývatnssveit séu af mannavöldum því loftslagið breyttist einnig á þessum tíma. Við landnám var hér hlýindaskeið en á 14. öld hófst kuldaskeið sem kallað er litla ísöldin og hafði áhrif á gróður um allt land. Á Hofstöðum sjálfum var hinsvegar aldrei mikill skógur. Gengið var nokkuð nærri honum fram til eldgoss 1477, en í kjölfar þess jafnaði hann sig nokkuð og hélst svipaður fram til 18. aldar. Gæti veisluskálinn og viðarþörf hans hugsanlega haft áhrif á hversu mikil nýting nálægra skóga var?
Miðstöðin Hofstaðir
Hvergi er minnst á Hofstaði í fornsögum. Þó er vitað meira um líf og störf fólksins þar en á flestum öðrum stöðum á Íslandi. Er það vegna umfangsmikilla fornleifafarannsókna þar og víðar í Mývatnssveit. Engar ritaðar samtímaheimildir eru til um fyrstu aldir Íslandsbyggðar svo fornminjar eru einar til frásagnar. Fornleifafræði leitast við að svara spurningum um fólk, gjörðir þess og viðbrögð, áhrif fólks á umhverfi sitt og áhrif umhverfis á fólkið.
Þrjú bæjarstæði frá víkingaöld eru þekkt á Hofstöðum. Vísbendingar eru um að á 10. öld hafi þar verið búið á þremur bæjum samtíða. Þetta stangast á við þá mynd sem er gjarnan sett fram um elstu byggð á Íslandi, að hér hafi fólk sest að á sjálfstæðum, einangruðum býlum. Elsta bæjarstæðið er norðarlega á torfunni þar sem kallað er í Brekkum. Þar er skáli og fleiri hús sem voru byggð eftir að gjóskulagið sem nefnt hefur verið landnámslagið féll en fyrir 940. Ekki er vitað hversu lengi sú búseta varði. Þetta svæði er enn órannsakað að mestu. Veisluskálinn mikli og byggingar þar í kring eru reistar eftir 940 og fallnar úr notkun um 1030. Kirkja og kirkjugarður eru jafnframt byggð á 10. öld og bær þar vestan við. Þar var bæjarstæðið næstu 1000 árin og bæjarhóll* hlóðst upp.
Velmegun Hofstaðabænda endurspeglast ekki í gulli og gersemum heldur stærð og fjölbreytni bygginga. Veisluskálinn er með mestu mannvirkjum frá víkingaöld sem rannsökuð hafa verið á Norðurlöndum. Kirkjugarðurinn er einnig með þeim stærstu frá fyrstu öldum kristni á Íslandi. Kirkjan var háreist og áberandi í landslaginu. Á seinni hluta 10. aldar, þegar bæði veisluskálinn og kirkjan voru uppistandandi, var tilkomumikið að horfa heim til Hofstaða. Vart er hægt að draga aðrar ályktanir en þær að heimamenn hafi markvisst ætlað að byggja upp miðstöð vestan Mývatns. Kannski var uppbyggingin mótvægi við Reykjahlíð og Skútustaði sem voru stórbýli frá fornu fari.
*Bæjarhólar myndast af byggingarefni (torfi, grjóti og timbri) og úrgangi manna og dýra í gegnum aldirnar
Til ígrundunar:
- Hvernig er best að túlka minjarnar á Hofstöðum?
- Hvernig getur fornleifafræði varpað ljósi á samfélagslegt valdatafl í upphafi þjóðveldisaldar?
- Hvernig birtist saga fólksins á Hofstöðum úr jörðu?

Yfirlitsmynd um fornleifar og rannsóknir á Hofstöðum. © Fornleifastofnun Íslands.
Veisluskálinn
Veisluskáli var fyrst reistur á Hofstöðum eftir 940. Hann var stór, um 28 m langur, en meðalskáli var um 12-16 m. Um svipað leiti var byggt jarðhýsi og smiðja. Er leið á 10. öld óx Hofstaðabændum enn ásmegin og þeir stækkuðu skálann í 38 m. Fleiri hús voru reist um þetta leyti: lítið íveruhús, útikamarhús, önnur smiðja og viðbyggingar við skálabygginguna, þar á meðal búr með stórum sá*. Þó skálinn væri óhefðbundinn að stærð var hann byggður með hefðbundnu lagi: þrískipa** bygging með niðurgrafinn miðgang, setbekki og svefnrými til beggja hliða. Í tveimur stoðarholum voru smásteinar, snældusnúður og hnífur, settir þar af ásettu ráði. Var það hugsanlega helgisiður tengdur byggingu hússins? Byggingin var þiljuð að stórum hluta og stúkuð af til endanna. Miðrýmið var stærst með langeldi í miðju og vísbendingar eru um innri skiptingar á pöllunum í kring, sennilega lokrekkjur. Langeldurinn var 1,2 m langur en algengt er að eldstæði í skálum séu á bilinu 1-2 m þó til séu bæði styttri og lengri gerðir. Langeldar eru miðjusettir í skálum og sýna rannsóknir að þar var miðpunktur heimilisins. Þar eru þykkustu gólflögin og þar finnast flestir gripir. Í gólfum veisluskálans fundust fjölbreytilegir hlutir, langflestir til hversdagsbrúks en nokkrir fágætir.
*Stór niðurgrafin tunna til að geyma súrmat.
**Þrískipa hús: Tvær stoðaraðir langsum skipta húsinu í þrennt.

Uppgröftur á veisluskála. Mynd tekin frá suðri til norðurs. © Fornleifastofnun Íslands.
Veisluhöld og trú
Einn af hornsteinum höfðingjaveldis voru samkomur og veisluhöld. Tilgangurinn var einkum talinn vera að treysta sambönd eða komast til áhrifa. Hofstaðaskálinn var ekki byggður fyrr en um miðja 10. öld en þá var byggð í sveitinni orðin nokkuð skipulögð. Því er fremur litið svo á að skálinn endurspegli tilraun til að komast til valda. Á Hofstöðum er það einkum þrennt sem bendir til að þar hafi verið samkomustaður. Fyrst og fremst er það skálinn mikli sem gat hýst marga gesti í einu. Dýrabein sýna óvenjulegan munað í mat. Þar er hlutafallslega mikið af gæðabitum af ungnautum, mjólkurgrísum og lömbum. Þá eru vísbendingar um dýrafórnir sem ekki verða auðveldlega aðskildar fornri trúariðkun. Nautshauskúpur eru taldar hafa hangið utan á skálanum. Alls fundust 23 slíkar, sumar hyrndar. Þá fundust merki um óvenjulegar aðferðir við slátrun. Sumir nautgripanna höfðu fyrst verið vankaðir með höggi á milli augna og hnakkabein sýna ummerki, höggför, sem benda til að þeir hafi verið hálshöggnir standandi með beittu eggjárni, t.d. sverði eða öxi. Þetta hefur verið áhrifamikill gjörningur því við afhöfðun spýttist blóðið út um hálsslagæðarnar.
Afhelgun skálans
Fornleifar á Hofstöðum gefa vísbendingar um það hvernig kristnitökuni var háttað. Minjarnar þar benda til þess að ekki hafi verið litið á trúarbrögðin sem andstæður. Um allangt skeið á 10. öld og vel fram á 11. öld þrifust báðir trúarsiðir hlið við hlið, skáli skreyttur hauskúpum fórnardýra og háreist kirkja. Í kringum árið 1030 var veisluskálinn yfirgefinn og afhelgaður. Margvíslegar helgiathafnir tengjast þeim endalokum. Hauskúpur fórnardýranna voru teknar niður og huldar, sárinn í búrinu fylltur af járngjalli og feluholan* við langeldinn fjarlægð. Kind var fórnað, drepin með höggi milli augna og skrokkurinn skilinn eftir í húsinu. Nothæfir viðir voru teknir niður. Ummerki um hin fornu trúarbrögð voru viljandi fjarlægð og hulin. Gamlir trúarsiðir höfðu runnið sitt skeið og nýr siður tekið við.

Nautshauskúpa grafin upp. © Fornleifastofnun Íslands.
* Í feluholum eða glóðarholum var eldi heimilisins haldið lifandi. Þar voru faldar glæður sem blásið var í líf þegar kveikt var upp í eldstæði.

Kirkjan og kirkjugarðurinn
Hofstöðum var reist á síðari hluta 10. aldar. Ekki er vitað fyrir víst hversu lengi kirkja var þar en ekki óhugsandi að það hafi verið fram undir siðaskipti. Greftrað var í kirkjugarðinum frá 10. öld, en hætt fyrir 1300. Ummerki fundust um endurbyggingu kirkjunnar á 12. öld.
Kirkjurnar voru í miðjum garðinum, báðar stafbyggðar. Þær voru litlar að flatarmáli, sú minni aðeins 9 m². Hornstoðirnar voru stórar, um 80 cm í þvermál sem bendir til þess að stafkirkjurnar hafi verið mjög háar. Kirkjugarðurinn var 25 m í þvermál og um hann hlaðinn áttstrendur torfveggur.
Í garðinum voru 169 grafir og hafa allar verið rannsakaðar. Flestir hinna fullorðnu voru greftraðir austan við kirkjuna, konur yfirleitt norðan megin og karlar sunnan við eins og tíðkaðist. Börnin voru oftast jarðsett upp við suðurvegg kirkju. Í fjórum tilfellum höfðu bein einstaklinga verið flutt í garðinn eftir að hafa verið fyrst greftruð annars staðar.
Kirkjugarðurinn á Hofstöðum, á myndinni eru grafir barna litmerktar. © Fornleifastofnun Íslands.
Daglegt líf
Allir forngripir, dýrasta skart og einfölduðustu áhöld, eru lýsandi fyrir lífsbaráttu fyrri tíðar kynslóða og endurspegla útsjónarsemi, sköpunarkraft, aðlögun, listfengi, aðgengi, verslun og tengsl.
Við rannsókn á veisluskálanum á Hofstöðum og húsaþyrpingunni í kring fundust um 1200 gripir frá 10.-11. öld, fjölbreyttir að gerð. Stærstu gripaflokkar eru málmur og steinn. Varðveisla gripa úr lífrænum efnum er almennt léleg og fáir gripir úr leðri, tré og textíl. Varðveisla beina er hinsvegar með ágætum.
Til ígrundunar:
- Endurspegla forngripirnir frá Hofstöðum hinar óvenjulegu minjar?
Uppruni
Flestir gripirnir fundust í öskuhaugum. Ruslalög eru samsett úr ösku úr eldstæðum, matarafgöngum og öðrum úrgangi. Gólf voru reglulega mokuð út úr húsum til þrifa og enduðu þá í haugnum. Það er ein ástæða þess að heillegir gripir finnast í öskuhaugum. Þeir hafa týnst, troðist ofan í gólfin og enda svo í ruslinu við tiltekt.
Gripum frá Hofstöðum má gróflega skipta í tvo flokka sem skarast. Í eldri mannvistarlögum eru gripir sem tengja má landnámsbylgjunni. Þá hafði fólk haft með sér frá fyrri heimkynnum eða komist yfir þá meðan ferðir voru tíðar. Innfluttir gripir eru þar áberandi, t.d. grýtur* og snældusnúðar úr norsku klébergi, hverfisteinn**, brýni, kambar, tinnur til eldsláttu og perlur úr gleri og rafi. Málma, eins og silfur, kopar og blý, þurfti einnig að flytja inn. Leiða má að því líkur að hluti járngripa í elstu mannvistarlögum séu innfluttir þar sem járnverkfæri voru nauðsynleg til smíða, viðgerða og akuryrkju. Flókið er að greina milli innlends og innflutts járns en smiðjur, gjall og sindur benda til þess að járn hafi verið unnið á Hofstöðum.
Í yngri mannvistarlögum varð innlendur efniviður algengari. Fólk lærði á ný heimkynni. Basaltsteinar voru notaðir í kolur*** og lóð, sandsteinn í snældusnúða og perlur gerðar úr jaspís og bergkristal. Þá hafa fundist margir aðfluttir litskrúðugir smásteinar, t.d. kvars, geislasteinar og silfurberg. Ummerki um málmsmíðar og járnvinnslu eru einnig greinileg. Um það vitnar mikið magn gjalls. Í gólfi fannst steypumót sem notað var til að hella bráðnu járni í. Úr því urðu til járnstangir sem voru síðan mótaðar í nytjahluti eins og nagla.
* Grýta. Pottur úr mjúkum innfluttum steina, klébergi. Kléberg finnst líka á Hjaltlandi og á Grænlandi en form grýtnanna sem finnast hér á landi benda til að þær hafi verið búnar til í Noregi.
**Hverfisteinn. Hringlaga brýni, ýmist fótstigið eða handsnúið
***Kola. Lampi úr steini
Hátíðir og hversdagur
Rétt eins og fjöldi hverdagslegra gripa geta gefið vísbendingu um óvenjulega iðju getur einn sjaldgæfur gripur gert hið sama. Einn gripur frá Hofstöðum á engan sinn líka. Það er silfurmen sem fannst í skálagólfinu. Á aðra hlið þess er rist einföld en torræð mynd: Þórshamar, kross eða andlit. Fleiri verðmæti höfðu traðkast ofan í skálagólfið og týnst, kannski við veisluhöld. Má þar nefna perlur úr gleri, rafi og steini, koparlauf af keðjunælu, silfurvír og hringprjón úr kopar. Fagurlega gerðir beinprjónar fundust í öskuhaugnum. Leggir þeirra eru brotnir en útskornir hausar heilir. Var þeim hent þegar þeir brotnuðu, án þess að reynt væri að gera við þá eða týndust þeir í skálanum og bárust með útmokstri gólfa í ruslið?
Langflestir gripanna eru hversdaglegir og endurspegla líf fólksins og almenn störf á bænum. Snældusnúðar og kljásteinar eru eini vitnisburðurinn um þá gríðarmiklu og margþættu vinnu er lá að baki því að koma ull í fat: rúningu sauðfjár, ullarþvott, kembingu, spuna, vefnað. Úr ullinni var unnið allt klæði sem þurfti fyrir heimilið. Snældusnúðar fundust í gólflögum skálans og í jarðhýsinu. Þeir örfáu textílbútar sem fundust voru allir úr ullarvaðmáli. Í jarðhýsinu fundust einnig 10 kljásteinar sem sýnir að þar var vefstaður. Ummerki um járnvinnslu eru fyrirferðarmiklar og ljóst að Hofstaðabændur höfðu greiðan aðgang að mýrarrauða og eldsmat, mó, torf og við, til að vinna járn. Járnvinnsla og járnsmíðar fór fram í smiðjunni. Smiðjur voru á hverjum bæ svo hægt væri að búa til og gera við áhöld.
Sjálfbærni
Gripirnir frá Hofstöðum bera þess merki að reynt var að láta þá endast. Þeir eru slitnir af mikilli notkun. Sjá má merki endurnýtingar og viðgerða. Snældusnúðar voru smíðaðir úr grýtum sem brotnuðu. Sindur og smágjall í skálanum benda til að þar voru unnar smáviðgerðir. Í deiglum fundust málmleifar en í henni var málmur bræddur til fínlegri málmsmíða. Sennilega voru það oftar en ekki silfur-og kopargripir sem voru bræddir til að búa til nýja eða til lagfæringa. Gripasafnið ber þess ekki merki að Hofstaðabændur hafi haft greiðari aðgang að innfluttum varningi en aðrir. Þrátt fyrir stórar byggingar og víðtækt tengslanet var sjálfbærni lykilatriði. Hagnýting innlendra auðlinda eða aðgengi að þeim var lífsnauðsynlegt höfðingjum á Hofstöðum sem öðrum.
Mataræði
Mataræði fólks má lesa úr matarleifum, svo sem dýrabeinum og eggjaskurni sem finnast í öskuhaugum. Eldstæði, soðholur* og ílát veita innsýn í það hvernig matur var eldaður. Rannsóknir á beinum fólks gefa einnig mikilvægar upplýsingar. Í sumum tilfellum sjást merki um næringarskort en einnig eru gerðar samsætugreiningar á beinum, bæði manna og dýra, til að rannsaka mataræði.
*Soðhola: Gryfja utandyra sem matur var eldaður í.
Til ígrundunar:
- Hvað borðaði fólk á Hofstöðum og segir það eitthvað til um félagslega stöðu þess?
- Hvaða áhrif hafði mataræðið á heilsu fólksins á Hofstöðum?
Öskuhaugarnir
Öskuhaugar, ruslið frá fólki, gefa margvíslegar upplýsingar um lifnaðarhætti. Þeir eru gjarnan á afmörkuðu svæði nálægt íveruhúsum. Þangað bar fólk öskuna úr eldstæðunum, matarleifar og ónýta gripi. Með rannsókn á öskuhaugum má lesa sögu viðkomandi staðar, hvað fólk borðaði og hvernig mataræði breyttist.
Dýrabein
Dýrabein sem grafin voru upp á Hofstöðum eru fjölbreytt og endurspegla þá matarkistu sem Mývatnssveit er. Þær dýrategundir sem hafðar voru til matar eru sauðfé, nautgripir, hestar, svín, fuglar og egg, ferskvatns- og sjávarfiskar og sjávarspendýr. Til viðbótar hafa fundist bein katta og hunda, sem og leifar kuðunga sem sennilega hafa borist með þangi.
Dýrabein frá Hofstöðum sýna að á víkingaöld hafi mataræði þar verið í grundvallaratriðum svipað og á öðrum bæjum í sveitinni: nýting vatnafugla úr næsta nágrenni, sauðfé var ræktað vegna ullarinnar og nautgripir í mjólkurbúskap, en þó hefur kjötið af þeim verið nýtt líka. Um leið er að finna merki um öðruvísi neyslu á Hofstöðum en annars staðar. Þar var mun meira borðað af sjávarfiski og –fuglum og merki sjást um slátrun ungnauta, lamba og mjólkurgrísa sem hefur verið tengd veisluhöldum. Eftir 12. öld er litlar upplýsingar að finna um mataræði á Hofstöðum út frá dýrabeinum. Þó fannst lítill öskuhaugur við kirkjugarðinn sem tímasettur hefur verið til um 1300. Í honum er mun hærra hlutfall af sjávarspendýrum en sést í eldri söfnum, sérstaklega af vöðusel. Þetta hefur verið túlkað á tvo vegu af sérfræðingum. Annars vegar að þetta sé merki um harðæri og því hafi þurft að leita lengra að mat. Beinin eru brotin til mergjar, sem bendi til þess að selurinn hafi verið fullnýttur til fæðu. Hins vegar mætti skoða komu vöðusels að Íslandi í víðara samhengi, að breytingar hafi orðið á stærð selsstofnsins og göngu æti hans. Því hafi framboð á vöðusel aukist.
Mannabein
Næringarskort má greina í beinum manna. Greiningar á beinum úr kirkjugarðinum á Hofstöðum bera minni merki um næringarskort en bein frá sama tíma frá öðrum stöðum. Ýmis önnur hreystimerki eru á íbúum Hofstaða. Þeir voru óvenju hávaxnir og langlífir. Bendir þetta til þess að heilsufar og næring hafa verið með betra móti. Á Hofstöðum og víðar í Mývatnssveit hafa verið gerðar ítarlegar samsæturannsóknir* á beinum bæði dýra og manna til að kanna mataræði. Samsætur komast í líkamann í gegn um fæðuna, og með greiningu á þeim má rannsaka t.d. uppruna eða fæðuval. Á Hofstöðum hafa verið gerðar greiningar á stöðugum samsætum kolefnis (δ13C), köfnunarefnis (δ15N) og brennisteins (δ34S). Með þessum rannsóknum má greina hversu hátt hlutfall af fæðunni er sjávarfæði, ferskvatnsfæði eða kemur af landinu. Niðurstöður sýna að fæðauval hefur byggst að mestu leiti á ferskvatnsfæðu (fiskar en líka vatnafuglar og egg) og landfæðu (kjöt, mjólk, ber, fjallagrös og fleiri nytjaplöntur). Minna hefur verið af sjávarfæðu, sérstaklega í samanburði við beinagrindasöfn frá sjávarsíðuni. Þó eru þrír einstaklingar sem skera sig úr hvað fæðuval varðar og gæti það bent til þess að þau séu aðflutt í Mývatnssveitina einhverntíman á síðasta áratug ævi sinnar.
*Samsætur: ólíkar gerðir frumefnis þar sem fjöldi róteinda í frumeind er sú sama, en fjöldi nifteinda er ólíkur, og því er massatalan ólík. Flest frumefni eru með eina eða fleiri náttúrulegar samsætur, bæði stöðugar og geislavirkar.

Beinagrind grafin upp í kirkjugarðinum á Hofstöðum. © Fornleifastofnun Íslands.
Fjölskyldan
Almennt er talið að elstu íslensku kirkjugarðarnir hafi einungis þjónað sínum bæ og hugsanlega hjáleigum og afbýlum. Rannsóknir á mannabeinum á Hofstöðum renna stoðum undir þá kenningu. Erfða- og heilsufarsrannsóknir á beinagrindum veita ýmsar upplýsingar um fólkið og samfélagið.
Til ígrundunar:
- Hvaða fólk bjó á Hofstöðum?
- Hvernig lífi lifði það og hvernig tengdist það hvort öðru?
Fjölskyldubönd í kirkjugarðinum
Meinafræðilegar rannsóknir og DNA greiningar hafa sýnt að náin fjölskyldutengsl voru á milli þeirra sem greftruð voru í kirkjugarðinum á Hofstöðum.
Í ljós kom að slitgigt í mjöðmum var töluvert algengari á Hofstöðum en annars staðar á Íslandi og í helstu samanburðasöfnum erlendis. Orsakir slitgigtar eru flóknar en niðurstöður rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar sýna að slitgigt í mjöðmum er arfgeng á Íslandi og kennsl hafa verið borin á nokkrar mjaðmagigtarættir hér á landi. Niðurstöðurnar frá Hofstöðum benda til þess að fólkið þar hafi verið náskylt og um leið að sú arfgenga slitgigt sem þekkist á Íslandi í dag hafi verið hér frá fyrstu öldum byggðar.
DNA* var greint úr 10 beingrindum á Hofstöðum. Þær rannsóknir leiddu m.a. í ljós að í þeim hópi er móðir, sonur hennar og dóttir. Dóttirin var grafin austan við kirkjuna. Bein móðurinnar og sonarins voru hins vegar aðflutt í garðinn frá öðrum stað. Ómögulegt er að segja til um hvaðan þau voru flutt.
*DNA: deoxýríbósakjarnsýra, aðalefni litninga, sameind sem geymir erfðaupplýsingar lífveru.
Sjúkdómar
Ýmsir sjúkdómar hafa hrjáð fólkið á Hofstöðum. Í kirkjugarðinum var greftruð kona sem lést um fimmtugt af völdum mergæxlis. Það er eina tilfellið af illkynja krabbameini sem fundist hefur í beinum frá fornri tíð á Íslandi og eitt örfárra slíkra tilfella í heiminum.
Mergæxli er illkynja æxli í beinmerg sem orsakast af fjölgun á einstofna plasmafrumum, og er enn í dag ólæknanlegt. Konan á Hofstöðum bar merki sjúkdómsins mjög víða í beinagrindinni: í höfuðkúpu, hryggjarliðum, rifbeinum, herðablöðum, viðbeinum, mjaðmabeinum og lærleggjum. Sjúkdómurinn var mjög langt genginn þegar hún lést og hún hafði verið veik í langan tíma, jafnvel nokkra áratugi. Undir það síðasta hefur hún verið mjög kvalin. Hún var með mikinn tannstein, m.a. á bitfleti jaxla sem bendir til þess að hún hafi verið á fljótandi fæði undir það síðasta. Nánast er óhugsandi að hún hafi ekki fengið eitthvað kvalastillandi. Hversu lengi konan lifði fársjúk þýðir að hún hlýtur að hafa verið hraust þegar hún veiktist, fengið gott fæði og að henni hafi verið hjúkrað.

Ummerki mergæxlis eru áberandi á höfuðkúpu konu sem lést úr sjúkdómnum og grafin var upp í kirkjugarðinum á Hofstöðum. © Fornleifastofnun Íslands.