Skóli
Fornleifaskóli var starfræktur á Hofstöðum og í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi á árunum 1997-2013. Að honum stóðu Fornleifastofnun Íslands og samstarfsnet Norður Atlandshafs fornleifafræðinga – NABO. Yfir 200 nemendur hafa lokið námi við skólann og þeir hafa skilað hátt í eitt hundrað doktors- og meistararitgerðum um fornleifafræði Íslands og Norður Atlantshafs. Þá dregur skólinn að sér fræðimenn víða að úr heiminum og er fyrir löngu orðinn grundvallarstofnun í fornleifafræði Norður Atlantshafs. Eftir nokkurt hlé vegna fjárskorts og kórónaveiru-faraldursins er Fornleifaskólinn nú aftur rekinn á Hofstöðum á vegum vettvangsakademíunnar og frekari þróun skólans er í mótun.
Fornleifaskólinn stendur yfir í mánaðartíma yfir hásumarið. Nemendur dvelja að Hofstöðum og fá hagnýta leiðsögn í íslenskri fornleifafræði, vinnubrögðum á vettvangi og forvörslu minja. Skólinn miðar að því að glæða áhuga nemenda fyrir fornleifafræði Norður Atlantshafs, menningarmiðlun og hvernig miðlun menningararfs getur nýst sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þá er það markmið skólans að auðvelda rannsóknir á Íslandi með því að aðstoða nemendur við að koma á tengslum við vísindafólk og stofnanir og veita ráðgjöf um möguleg rannsóknarverkefni.
Fornleifaskóinn er tíu eininga nám á háskólastigi og ætlaður framhaldsnemendum í fornleifafræði. Einnig geta nemendur sem lokið hafa 90 einingum í grunnnámi sótt um. Undirstaða í fornleifafræði, mannfræði og/eða sögu er nauðsynleg, auk þess sem nemendur með áhuga á fornleifafræði Norður Atlandshafs hafa forgang í skólann. Sérfræðingar fara yfir umsóknir. Mat á umsóknum er byggt á menntun, reynslu og rannsóknaráhuga.
Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans: https://rif.hi.is/is/afsh