Um vettvangsakademíu
Vettvangsakademía á Hofstöðum í Mývatnssveit er þverfagleg vísindastofnun sem vinnur að rannsóknum, kennslu og miðlun menningararfs er byggir á ríkulegri rannsóknasögu Hofstaða. Vettvangsakademían er sjálfseignastofnun með samþykkta skipulagsskrá.
Á Hofstöðum í Mývatnssveit er að finna minjar um búsetu frá landnámstíð og rík rannsóknasaga allt frá byrjun 20. aldar varpar ljósi á sambýli fólks og náttúru í 1100 ár. Á 10. öld var reistur veisluskáli á Hofstöðum sem er stærsta hús sem grafið hefur verið upp á Íslandi og jafnast á við stærstu hús sem þá stóðu á Norðurlöndum. Að auki hafa meðal annars verið grafin upp kirkja og kirkjugarður á bæjarhólnum á Hofstöðum, ennfremur hefur verið grafið á fjöldamörgum stöðum öðrum í landi Hofstaða og víðar í Mývatnssveit. Rannsóknarsaga Hofstaða teygir sig aftur til 19. aldar en mjög umfangsmiklir uppgreftir og umhverfisrannsóknir síðastliðin 30 ár hafa gert Hofstaði að lykilstað í menningarsögu Norðurlanda.
Undirbúningur að stofnun Vettvangsakademíu á Hofstöðum í Mývatnssveit hófst 2024 en þá fengu Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Minjastofnun Íslands styrk úr Samstarfssjóði háskólanna til að koma á laggirnar fræðslu- og rannsóknastöð á Hofstöðum sem yrði miðstöð vettvangsrannsókna, vettvangsþjálfunar- og kennslu á sviði íslenskrar fornleifafræði, minjaverndar, og miðstöð hagnýtra rannsókna í þágu menningararfs ferðaþjónustu. Styrkur til verkefnisins fékkst einnig á fjárlögum 2025.
Vettvangsakademían hefur þrjár meginstoðir:
- þjálfun og kennsla
- hágæða vísindarannsóknir
- þróun lausna fyrir menningararfsferðaþjónustu.
Lesa meira um verkefnið
Þjálfun og kennsla
Vettvangsnám í fornleifafræði, þar sem veitt er þjálfun í aðferðafræði uppgraftar og fornleifafræðilegum vettvangsrannsóknum almennt, er nauðsynlegt til að mennta færa vísindamenn og stuðlar að og viðheldur fagmennsku og gæðum í atvinnugreininni. Spennandi vettvangsnám eins og boðið er upp á á Hofstöðum laðar að efnilega nemendur og þar hafa margir af öflugustu vísindamönnum á sviði Norður Atlantshafsfornleifafræði stigið sín fyrstu skref. Vettvangsnámið er mikilvægt aðdráttarafl og þar með undirstaða fyrir öflugt framhaldsnám í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Mikil reynsla er komin á slíkt námskeiðahald og miklir möguleikar á að færa út kvíarnar og bjóða upp á mismunandi námskeið og þjálfun fyrir háskólanemendur og unga vísindamenn hvaðanæva úr heiminum, en einnig nemendur á öðrum skólastigum og fyrir almenning.
Vísindarannsóknir
Hofstaðir hafa verið vettvangur umfangsmikilla fornleifarannsókna frá 1991 og þar hafa verið grafnar fram minjar sem eru einstakar á Íslandi. Hofstaðir eru lykilstaður í fornleifafræði víkingaaldar og þar hefur byggst upp gríðarleg þekking á landnámi, þróun byggðar, heiðnum sið og trúskiptum, sambúð manns og náttúru og samfélagi miðalda. Mörgum spurningum er ósvarað og margir staðir bíða frekari rannsókna, bæði á bæjarstæðinu sjálfu og í næsta nágrenni. Áætlanir eru um stórfelldar fornleifarannsóknir á Hofstöðum sem hafa þríþætt markmið
- að afla nýrrar þekkingar og stuðla að frjórri umræðu um fræðileg álitamál
- að vera í fararbroddi vísindalegra gæða í vettvangsrannsóknum og vera fyrirmynd og staðall fyrir slíkar rannsóknir á Íslandi
- að vera sjálfstætt aðdráttarafl fyrir gesti og bakhjarl fyrir vettvangsnámið
Menningararfsferðaþjónusta
Eins og á Hofstöðum hafa víða verið grafnar upp stórmerkilegar og heillandi fornleifar á Íslandi á undanförnum áratugum en mun minna hefur orðið úr hagnýtingu þeirra en tilefni er til. Skortur er á þekkingu og lausnum til að gera minjastaði þannig úr garði að hægt sé að sýna þá ferðafólki þannig að af því skapist tekjur. Á þessu sviði skortir bæði praktískar lausnir (t.d. um ágang gesta á viðkvæmar minjar úr torfi) og þróun, sem kallar á markvissar rannsóknir og að byggja upp reynslu og þekkingu. Á Hofstöðum eru stórfenglegar minjar með mikið aðdráttarafl sem skapa kjöraðstæður til að þróa aðferðir og lausnir sem nýta má á öðrum minjastöðum.

kirkjugarðurinn og kirkjan
núverandi íbúðarhús
núverandi útihús
veisluskáli
garður
Myndir á vefnum eru í eigu Fornleifastofnunar Íslands © og birtar með leyfi stofnunarinnar.
Texti vefsins (menningararfur og rannsóknir) er fenginn úr sýningu Þjóðminjasafns Íslands Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit, 2020-2022 með góðfúslegu leyfi safnsins og höfunda. Höfundar texta eru Hildur Gestsdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir og Hrönn Konráðsdóttir.